



ÞEMANÁM NEMENDA Í
UM SKÓLANA
Grunn- leik- og tónlistarskóli á Svalbarðsstönd.
Álfaborg/Valsárskóli er á Svalbarðsströnd í Suður-Þingeyjarsýslu, við austanverðan Eyjafjörð. Þaðan eru um 12 kílómetrar til Akureyrar. Skólahverfið liggur frá Veigastöðum í suðri til Garðsvíkur í norðri.
Álfaborg/Valsárskóli var settur saman úr grunnskólanum Valsárskóla og leikskólanum Álfaborg sumarið 2015 og árið 2016 bættist Tónlistaskóli Svalbarðsstrandar við.
Skólinn er rekinn í þremur deildum, leikskóladeild, grunnskóladeild og tónlistaskóladeild. Auk þess er í skólanum starfrækt vistun fyrir nemendur í 1.-4. bekk eftir að grunnskólanum lýkur.
Skólastjóri Álfaborgar/Valsárskóla er Inga Sigrún Atladóttir
ÞEMANÁMIÐ
Í Valsárskóla/Álfaborg hefur markmiðum aðalnámskrár grunnskóla í list- og verkgreinum, upplýsinga- og tæknimennt, náttúru og samfélagsgreinum verið raðað saman í 12 þemaverkefni. Auk þess eru markmið þessara greina ásamt íslensku samþætt í fjórar þemavikur á ári.
Í þemanámi í Valsárskóla/Álfaborg er gengið eins langt og mögulegt er í átt að hugsmíðahyggju. Hugsmíðahyggjan leggur fyrst og fremst áherslu á nám frekar en kennslu og byggjir á því að nemendur séu sem virkastir í námi sínu.
ÞEMANÁMIÐ DREIFIST Á ÞRJÚ ÁR

2017
-
2018
HRINGRÁSIR
ÍSLANDSSAGA
HIMINGEIMURINN
JAFNRÉTTI, LÝÐRÆÐI OG SKÖPUN

2018
-
2019
LÍKAMINN OKKAR
ÍSLENSKIR ÞJÓÐHÆTTIR
HAFIÐ OG FJÖLLIN
LANDAKORT

2019
-
2020
LÍFRÍKI Á LANDI OG SJÓ
SAGA MANNSKYNS
TÆKNIN
LEIÐTOGASAMFÉLAGIÐ
LEIKSKÓLINN
Leikskóli var stofnaður á Svalbarðsströnd 1993. Hann tók til starfa 15. mars í húsnæði kaupfélagsins sem þá var hætt rekstri. Tillögur um nafn á leikskólann voru gerðar meðal foreldra og var nafnið Álfaborg valið. Opnunartími var kl. 08-13.00 og rými fyrir 20 börn.
Leikskóli sem bar nafnið Álfaborg opnaði í gamla grunnskólahúsnæðinu 31. júlí 1995. Þá var boðið upp á nokkra vistunartíma og var leikskólinn opinn frá kl. 07.45 – 17.15. Frá 1. september 2001 hafa öll börnin komið á morgnana og eru mislangt fram á daginn.
Í dag er leikskólinn opinn frá kl. 07.30- 16.15. Frá upphafi var leikskólinn ein deild fyrir 2-6 ára börn. Haustið 2005 var 150m2 nýbygging tekin í notkun og breytti hún aðstöðunni til hins betra. Sumarið 2006 var síðan eldri hluti skólans endurbættur, forstofa löguð og aðskilin frá grunnskólainngangi, settur hiti í gólf, ný gólfefni og nýjar hurðir og sena færð yfir í húsnæði leikskólans. Um áramót 2005-2006 varð sú breyting að inntökualdur var færður niður í 18 mánuði og frá haustinu 2016 var farið að taka inn börn frá 9 mánaða aldri á sérstakri ungbarnadeild við skólann.
Leikskólastjóri í Álfaborg frá stofnun leikskóla á Svalbarðsströnd til 1995 var Guðrún Jónsdóttir og frá 1995 til sameiningar skólanna var Ragna Erlingsdóttir leikskólastjóri.
VALSÁRSKÓLI
Grunnskólinn er fámennur skóli með samkennslu nemenda. Fjöldi stöðugilda breytist í takt við nemendafjöldann hverju sinni. Skólaárið 2017-2018 eru 49 nemendur í þremur bekkjardeildum, í 1. - 4. bekk 21 nemendur, í 5. - 7. bekk 12 nemendur og í 8. - 10. bekk 18 nemendur.
Haustið 2008 tók til starfa skólavistun fyrir nemendur í 1. - 4. bekk.
Saga skólahalds á Svalbarðsströnd nær samkvæmt heimildum aftur til ársins 1902. Farskóli var rekinn frá því að fræðslulögin voru sett 1907 og fram til ársins 1922 þegar lokið var við byggingu samkomuhúss hreppsins sem nýtt var sem skólahús á vetrum til ársins 1970. Þá var skólahald flutt í nýtt skólahúsnæði en kennsla unglingastigs og íþróttakennsla fór fram á Hrafnagili í Eyjafirði og var nemendum ekið þangað daglega. Sundkennsla fór þó fram í sundlaug Svalbarðsstrandarhrepps sem byggð var 1931 og er svo enn. Svalbarðsstrandarhreppur tók þátt í uppbyggingu skólahúsnæðis á Hrafnagili en mikill hugur var í heimamönnum um byggingu íþróttahúss á heimastað og að grunnskólakennsla sveitarinnar færi öll fram á heimavettvangi. Árið 1995 var flutt í nýtt skólahúsnæði og íþróttahús. Nýi grunnskólinn fékk nafnið Valsárskóli.
Stærstur hluti eldra húsnæðis var tekinn undir rekstur leikskólans Álfaborgar. Árið 2004 var tekin í notkun 420 fermetra viðbygging við skólann og árið 2005 voru verkmenntastofur í gamla skólahúnæðinu í leikskólanum endurgerðar ásamt skólaleikvelli með nýjum leiktækjum. Sparkvöllur við skólann var tekinn í notkun haustið 2008. Skólahúsnæðið telur alls um 1715 fermetra og hluti þess er jafnframt nýttur sem félagsaðstaða sveitarfélagsins.
Arkitektar grunnskólans eru tveir. Bárður Daníelsson hóf vinnuna en við skipulagningu og hönnun innanhúss tók Sigríður Sigþórsdóttir hjá VA arkitektum ehf en hún er einnig arkitekt viðbyggingar