top of page

       Erfðabreytt matvæli.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Erfðabreytt matvæli

 

Frá því fyrstu erfðabreyttu tómatarnir komu á markað í Bandaríkjunum árið 1994 er búið að leyfa framleiðslu og sölu á fjölmörgum tegundum af erfðabreyttum matjurtum. Í ríkjum Evrópusambandsins hefur verið leyft að setja á markað erfðabreyttar sojabaunir, erfðabreyttan maís, erfðabreytt jólasalat og erfðabreytta repju. Í Bretlandi hefur verið leyft að selja tómatsósu úr erfðabreyttum tómötum. Auk þess er þar leyft að nota erfðabreytta gersveppi við bjórframleiðslu og í brauðgerð, og leyfð er framleiðsla á B vítamíni (ríbóflavíni) og renníni til ostagerðar með erfðabreyttum örverum. Erfðabreyttar dýraafurðir hafa einnig komið á markað samanber svín, erfðabreyttan lax, hárlaus hænsn svo eitthvað sé nefnt, þó er ekki búið að leyfa slíkt víðast hvar til neyslu. Líklegt er að á næstu misserum muni aukast enn frekar þeir möguleikar sem standa til boða í slíku.

Tilraunir með erfðabreytingar á nytjaplöntum standa yfir víða um heim. Sem dæmi má nefna kartöflur, sykurrófur, tómata, jólasalat, melónur, hrísgrjón, maís og fleira. Því má búast við að brátt verði fleiri tegundir erfðabreyttra matvæla á boðstólum.

Skiptar skoðanir eru um erfðabreytt matvæli og er andstaðan einna mest í Evrópu.
Andstæðingarnir telja að þróunin sé alltof hröð og að matvæli séu sett á markað áður en nægilegar rannsóknir hafi farið fram á áhrifum þeirra á heilsu neytenda. Þeir benda einnig á að áhrif stórfelldrar ræktunar erfðabreyttra plantna á umhverfið hafi ekki verið könnuð að neinu marki.

Hvað eru erfðabreytt matvæli?

Matvæli sem innihalda:

  • Lifandi erfðabreyttar lífverur.

 

Dæmi: Tómatar, maís, súrmjólk sýrð með erfðabreyttum mjólkursýrugerlum.

  • Erfðaefni eða prótein úr erfðabreyttum lífverum

Dæmi: Tómatmauk úr erfðabreyttum tómötum, kornflögur (cornflakes) úr
erfðabreyttum maís, kartöflumjöl úr erfðabreyttum kartöflum o.s.frv.

Kostir og möguleikar

Hvað er hægt að gera með erfðatækni í matvælaframleiðslu?

  • Auka framleiðsluna verulega og mæta þannig aukinni fæðuþörf sem leiðir
    af vaxandi fólksfjölgun í heiminum, einkum í þróunarlöndunum.

  • Auka næringargildi matvæla, t.d. auka próteininnihald í hrísgrjónum,
    sorghum, hveiti og fleiri korntegundum eða auka innihald vítamína og
    fleiri bætiefna í matvælum.

  • Draga úr hlutfalli mettaðrar fitu í matvælum.

  • Fjarlægja ofnæmisvaka úr mikilvægum fæðutegundum, t.d. hveiti og
    sojabaunum.

Plöntum er m.a. erfðabreytt til að ná fram:

  • meiri uppskeru, m.a. með því að auka mótstöðuafl þeirra gegn
    sjúkdómsvöldum (sveppum, veirum, skordýrum) eða illgresiseyðum
    Plönturnar eru t.d. látnar framleiða efni sem fæla frá eða drepa skordýr
    eða gera þær ónæmar fyrir sýkingum og illgresiseyðum

  • plöntum sem geta vaxið og þroskast við misjöfn umhverfisskilyrði, svo
    sem sveiflur í hitastigi, frost, þurrka eða saltan jarðveg. Með þessu
    móti má rækta plöntur á svæðum sem annars myndu ekki henta vel til
    ræktunar

  • auknu geymslu- og flutningsþoli grænmetis og ávaxta, t.d. með því að
    hægja á þroska

  • breytingum á efnasamsetningu, t.d. kartöflum með breytta samsetningu
    sterkju til framleiðslu á kartöflumjöli

  • plöntum sem framleiða lyfjaefni og mótefni.

Dýrum er m.a. erfðabreytt til að ná fram:

  • aukinni mótstöðu gegn smitsjúkdómum. Slíkar erfðabreytingar á húsdýrum verða
    til þess að þau veikjast sjaldnar og þurfa minna af lyfjum og þannig er hægt
    að draga úr hættunni á að lyfjaneysla dýra hafi áhrif á neytandann vegna
    lyfjaleifa í matvælum

  • auknu þoli gegn kulda, hita og þurrki

  • auknum vaxtarhraða eða auknum afurðum, t.d. hraðari vexti svína og laxa eða
    aukinni mjólkurframleiðslu mjólkurkúa

  • dýrum sem framleiða og skila frá sér verðmætum lyfjum, t.d. í mjólk

  • dýrum til notkunar í þágu læknavísinda.

  • Hvað er gen?

Gen er sá hluti erfðaefnisins sem geymir upplýsingar um hvers konar prótein frumurnar í lífverum eiga að mynda, en próteinin (einnig kölluð eggjahvítuefni) eru stórar sameindir myndaðar úr amínósýrum. Próteinin gegna mikilvægu hlutverki t.d. við að brjóta niður næringarefni og byggja upp ný nauðsynleg efni. Það eru genin sem ákvarða mismunandi eiginleika lífvera, svo sem þá að plöntur mynda rætur og bera blóm og að fjórfætlingar hafa fjóra fætur. Genin ákvarða einnig annars konar eiginleika, t.d. lit blóma og augnlit manna og dýra.

Kynbætur og erfðabreytingar

Við kynæxlun blandast erfðaefni beggja foreldra og afkvæmin fá sitt lítið af hverju frá hvoru foreldri. Blöndun erfðaefnis er forsenda fyrir hefðbundnum kynbótum, en þær eru þeim annmarka háðar að aðeins er hægt að blanda saman erfðaefni lífvera af sömu tegund. Hægt er til dæmis að blanda saman erfðaefni mismunandi hrossaafbrigða, en þegar erfðaefni hests og asna er blandað saman verður útkoman ófrjótt múldýr. Á sama hátt er aðeins hægt a&et h; blanda saman erfðaefni skyldra plantna. Með aðferðum erfðatækninnar er hins vegar hægt að flytja erfðaefni milli óskyldra tegunda. Hægt er að flytja erfðaefni úr bakteríu inn í frumur hveitiplantna eða úr fiski í frumur kartöfluplantna og þannig fæst erfðabreytt hveiti og erfðabreyttar kartöflur. Munurinn á kynbótum og erfðabreytingum er munur á aðferðum og við erfðabreytingar er farið yfir þau mörk sem náttúran setur blöndun erfðaefnis óskyldra lífvera.

Merkingar

Eftir fjögurra ára umræður innan Evrópusambandsins náðist samkomulag um reglugerð um nýfæði í maí 1997. Í reglugerðinni eru m.a. ákvæði um merkingar á erfðabreyttum matvælum en hún náði þó ekki til þeirra erfðabreyttu matvæla sem komin voru á markað áður en hún tók gildi, þ.e. sojabauna og maís. Sérstök reglugerð sem tók sérstaklega á þessum vörum var gefin út í nóvember 1997. Ekki var þó sátt um hana og því var enn gefin út ný reglugerð í maí 1998 um merkingar á erfðabreyttum sojabaunum og maís. Samkvæmt henni á að merkja allar erfðabreyttar afurðir úr maís eða soja ef hægt er að mæla nýtt DNA eða ný prótein í vörunni. Í janúar 2000 gaf Evrópusambandið enn út nýja reglugerð þess efnis að vörur sem innihalda 1% eða minna af erfðabreyttum sojabaunum eða erfðabreyttum maís eða afurðir úr þessum plöntum skuli undanþegnar merkingum ef erfðabreytti þátturinn er sannanlega tilkominn vegna mengunar, annaðhvort í flutningum eða á ræktunarstað. Þetta þýðir að ekki þarf að merkja vöru sem inniheldur minna en 1% af afurðum úr erfðabreyttum sojabaunum eða maís ef framleiðendur geta sýnt fram á að hráefnið hafi mengast, annaðhvort í flutningum eða á akrinum hjá bóndanum sem ræktaði það.

Hvernig á að merkja og hvers vegna?

Ef eitthvert innihaldsefni er erfðabreytt skal standa „erfðabreytt“ á eftir viðkomandi efni í innihaldslýsingu. Einnig má stjörnumerkja innihaldsefnið og setja *„erfðabreytt“ neðan við innihaldslýsingu. Í vörum þar sem innihaldslýsing er óþörf skal setja merkingu á borð við „Framleitt úr erfðabreyttu . . .“ á áberandi stað á umbúðum. Merkingar á erfðabreyttum matvælum eru fyrst og fremst til upplýsingar fyrir neytendur, þ.e. neytendur eiga rétt á að velja hvort þeir kaupa erfðabreytt matvæli eða ekki. Merkingarnar eru ekki varúðarmerkingar, enda hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að erfðabreytt matvæli séu skaðleg heislu manna.

Merkingar á Íslandi

Í reglugerð nr. 728/2011 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera eru ákvæði um merkingar sem gilda um vörur sem innihalda erfðabreyttar lífverur (t.d. maís, soja). Ekki þarf þó að merkja vörur sem ekki er hægt að útiloka að innihaldi minna en 0,9% af tilfallandi eða tæknilega óhjákvæmilegum leifum af heimiluðum erfðabreyttum lífverum sbr. reglugerð Evrópusambandsins 1830/2003/EB

Hvað á að koma fram í merkingu?

Í merkingu á að koma fram:

  • heiti vörunnar og erfðabreyttu lífveranna sem í henni eru

  • nafn og heimilisfang framleiðanda eða dreifingaraðila

  • upplýsingar um vöruna og nákvæmar notkunarleiðbeiningar þegar það á við

  • til hvaða ráðstafana skal gripið ef erfðabreyttar lífverur sleppa út í
    umhverfið fyrir slysni

  • nákvæmar leiðbeiningar um geymslu og meðferð vörunnar.

Merkingar annars staðar en í Evrópu

Í Bandaríkjunum og Kanada eru ekki gerðar kröfur um merkingar á erfðabreyttum matvælum. Bandaríkjamenn segja sem svo að erfðabreytt matvæli séu sambærileg hefðbundnum matvælum að öllu leyti nema hvað varðar erfðabreytinguna og þess vegna sé ekki mikilvægt fyrir neytendur að vita hvernig þau voru framleidd. Þetta er hins vegar að breytast þar sem nokkur ríki eru að taka upp merkingar þrátt fyrir að ekki séu lög um slíkt í landinu almennt (federal law)

Í Noregi á að merkja erfðabreytt matvæli ef erfðabreytti þátturinn er meira en 2% af innihaldsefnum þeirra og í Sviss gilda svipaðar reglur og í Evrópusambandinu.

Í Ástralíu og Nýja Sjálandi og Japan hefur verið ákveðið að merkja erfðabreytt
matvæli.

Spurningar sem vakna

Eru erfðabreytt matvæli á Íslandi?

Þar sem ekki er krafist merkinga á erfðabreyttum matvælum í Bandaríkjunum hefur erfðabreyttum sojabaunum verið blandað saman við sojabaunir sem ekki hefur verið erfðabreytt. Því er líklegt að hluti af þeim sojabaunum sem koma hingað frá Bandaríkjunum sé erfðabreyttur og það sama gildir um vörur sem unnar eru úr sojabaunum, sojapróteini eða öðrum sojavörum. Sama gildir um erfðabreyttan maís og afurðir úr honum. Dæmi um slíkar afurðir eru kornflögur, poppmaís, alls konar kex, maísmjöl, sojasósur, sælgæti, barnamatur og ýmis konar snakk. Er óhætt að borða erfðabreytt matvæli?

Allar lífverur innihalda mörg þúsund gen og í hvert sinn sem við borðum mat borðum við gen. Hvatar í meltingarveginum brjóta genin niður í smáar einingar, sem eru notaðar til að byggja ný gen, sem okkur eru lífsnauðsynleg. Reynslan hefur kennt okkur að óhætt sé að borða matvæli án þess að fram fari sérstakt mat á því hvort þau geti verið skaðleg.

Í erfðabreyttum matvælum eru sömu gen og í samsvarandi hefðbundnum matvælum. Munurinn er að einu eða fleiri genum hefur verið bætt vi ð, breytt eða tekin burt með erfðatæknilegum aðferðum. Í erfðabreyttum maís hefur til dæmis verið bætt inn geni sem veldur því að að ákveðin skordýr geta ekki skaðað hann.

Áður en leyft er að setja nýja tegund af erfðabreyttum matvælum á markað fer fram mat á hvort erfðabreytingin geti verið skaðleg heilsu neytenda.

Hvað er skoðað?

  • Hvort nýja erfðaefnið er stöðugt.

  • Hvort ný prótein geti verið ofnæmisvakar eða haft eiturhrif.

  • Hvort ný prótein hindra upptöku næringarefna.

  • Hvort óvæntar breytingar eða hliðaráhrif hafi átt sér stað.

Hvað með umhverfið?

Þegar búið er að sleppa erfðabreyttum lífverum út í náttúruna verður ekki aftur
snúið. Þess vegna verður að skipuleggja tilraunir vel og fara að ströngum
öryggiskröfum og huga að hugsanlegum langtímaáhrifum á umhverfið. Ekki má sleppa
erfðabreyttum lífverum út í náttúruna nema að fengnu leyfi yfirvalda.

Áður en leyft er að rækta erfðabreyttar plöntur til matvælaframleiðslu verða að
hafa farið fram tilraunir á afmörkuðum svæðum (túnum og ökrum) og rannsóknir á
áhrifum ræktunarinnar á umhverfið og aðrar lífverur.

Hugsanleg áhætta af erfðabreyttum plöntum:

  • að notkun á illgresiseyðum aukist í stað þess að minnka

  • að nýir eiginleikar erfðabreyttra plantna flytjist yfir í villtar plöntur
    og hafi áhrif á vistkerfið

  • að erfðabreyttar plöntur verði að illgresi

  • að mengun á náttúrulegu erfðamengi plantna dragi úr erfðabreytileika
    þeirra.

Hugsanleg áhætta af erfðabreyttum dýrum:

  • að nýir eiginleikar erfðabreyttu dýranna flytjist í villta stofna og hafi
    áhrif á vistkerfið

  • að dýr verði í auknum mæli látin þjást í þágu vísinda, t.d. við
    framleiðslu í risabúum

  • að mengun á náttúrulegu erfðaefni dýrastofna dragi úr erfðabreytileika
    þeirra.

Munu erfðabreytt matvæli stuðla að aukinni hagsæld í þróunarlöndunum?

Ein af megin röksemdum framleiðenda erfðabreyttra plantna er að þessi tækni muni
stuðla að aukinni velsæld í þróunarlöndum og auki fæðuframboð umtalsvert. Á
þessi röksemd rétt á sér?

Já, segja sumir:

Hægt er að erfðabreyta plöntum þannig að þær henti til ræktunar á stöðum þar sem ræktunarskilyrði eru ekki góð, t.d. vegna þurrka og hita. Hægt er að erfðabreyta matvælum til að auka næringar- og orkugildi þeirra.

Nei, segja aðrir:

Hin nýja tækni mun verða til þess að bændur í þróunarlöndum verða að rækta plöntuafbrigði frá iðnaðarlöndunum. Það mun valda því að staðbundin afbrigði, sem reynst hafa vel, deyja út, útflutningur frá þróunarlöndum minnkar og efnahagur þeirra versnar. Fyrirtækin, sem framleiða erfðabreytt sáðkorn, hafa einkaleyfi á því og bændur mega ekki safna saman fræjum á haustin og sá þeim á vorin. Smábændur í þróunarlöndunum hafa ekki bolmagn til að kaupa alltaf nýtt útsæði og þeir munu því flosna upp.

Eiga einkaleyfi rétt á sér?

Einkaleyfi eru gefin út til að vernda uppfinningar í ákveðinn árafjölda. Á meðan leyfið er í gildi má enginn nota uppfinninguna án leyfis einkaleyfishafans sem yfirleitt tekur gjald fyrir afnotin. Margir spyrja hvort rétt sé að veita einkaleyfi á erfðabreyttum plöntum og
sáðkorni.

Já, segja sumir:

  • enkaleyfi eru forsenda þess að kostnaður við rannsókna- og þróunarvinnu skili sér og standi undir frekari rannsóknum og þróun

  • einkaleyfi þarf að birta opinberlega og án einkaleyfa myndu uppfinnendur ekki birta uppfinningar sínar heldur halda þeim leyndum. Slíkt stæði vísindunum fyrir þrifum.

Nei, segja aðrir:

  • gen eru ekki uppfinning og því á ekki að veita einkaleyfi á þeim

  • einkaleyfi á genum og sáðkorni stuðla að því að örfá fjársterk fyrirtæki verði ráðandi í allri landbúnaðarframleiðslu í heiminum

  • einkaleyfi koma aðeins fjársterkum fyrirtækjum í iðnvæddum ríkjum til góða en
    þróunarríkin sitja eftir. Þar með fellur sú meginröksemd að erfðabreytt
    matvæli muni stuðla að því að auka fæðuframboð í þróunarríkjunum.

———————————————————————-

Helstu lög og reglur

Lög nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur.

Reglugerð nr. 330/1997 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera.

Reglugerð nr. 493/1997 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu
erfðabreyttra lífvera.

Reglugerð Evrópusambandsins nr. 258/97 um nýfæði og ný innihaldsefni í matvæla
(gildir ekki hér á landi).

Reglugerð Evrópusambandsins nr. 1138/1998 um kröfur um merkingar á afurðum úr
erfðabreyttum lífverum (gildir ekki hér á landi).

Reglugerð Evrópusambandsins nr. 49/2000 um breytingar á reglugerð 1138/1998,
þ.e. undantekningar frá merkingarákvæðum ef erfðabreyttur þáttur en minna en 1%
af innihaldsefnum vöru (gildir ekki hér á landi

 

heimild: http://doktor.is/grein/erfdabreytt-matvæli.

bottom of page