top of page

Svarthol

Talið er að massamiklar stjörnur endi æviskeið sitt sem svarthol. Svarthol verða til þegar kjarnar stjarnanna falla saman undan eigin massa. Kjarninn fellur saman þangað til hann er orðinn geysilega þéttur og allur massinn er saman kominn á örlitlu svæði. Umhverfis það er þyngdarsviðið svo sterkt að ekkert sleppur í burtu, ekki einu sinni ljós.

 

Í svari sömu höfunda við spurningunni Hvernig myndast svarthol í geimnum? er lýst nánar fyrrgreindum aðdraganda að því að massamikil stjarna, þyngri en 30 sólir, endar ævi sína sem svarthol. - Rétt er að geta þess að eðlisfræðingar tala oft um það sem þeir kalla þyngdarsvið, sem er ekkert annað en þyngdarkrafturinn á hlut á viðkomandi stað, deilt með massa hlutarins. Þyngdarsvið kringum himinhnött er þeim mun minna sem staðurinn er fjær hnettinum. Þegar massinn hefur fallið saman í einn punkt verður þyngdarkraftur svo sterkur að ekkert innan ákveðinnar fjarlægðar frá miðju sleppur í burtu, ekki einu sinni ljós. Vegna þess að ljós sleppur ekki í burtu verður fyrirbærið algjörlega ósýnilegt og skýrir það nafngiftina.

Mörkin þar sem þyngdarkrafturinn verður nógu sterkur til að gleypa ljós eru aðeins í örfárra kílómetra fjarlægð frá miðjunni. Við þessi mörk er sagt að lausnarhraðinnsé meiri en ljóshraði. Þau nefnast sjónhvörf (e. event horizon) og má líta á þau sem yfirborð svartholsins. Ástand hins óendanlega þétta efnis í miðjunni er vissulega undarlegt. Staðurinn þar sem þetta gerist nefnist sérstæða (e. singularity) en það orð er fengið úr stærðfræði og táknar meðal annars punkt þar sem fall stefnir á óendanlegt. Ástandið í þessum punkti er svo framandi að allar viðteknar hugmyndir vísindanna bregðast. Allt í kring eru tími og rúm sveigð vegna hins gífurlega massaþéttleika, í samræmi við forsagnir almennu afstæðiskenningarinnar. Í sérstæðunni sjálfri er sveigjan óendanleg, það er að segja að jafnvel tími og rúm hætta að vera til í þeirri mynd sem við þekkjum.

Ef svarthol sleppa ekki einu sinni ljósi frá sér, hvernig geta stjörnufræðingar þá fundið þau? Helsti möguleikinn er að greina áhrif hins mikla þyngdarkrafts þeirra á nágrennið, sem er hægt ef svartholið hefur fylgistjörnu. Þegar gösin frá fylgistjörnunni dragast inn í svartholið hitna þau. Áður en þau týnast endanlega í svartholinu geta þau orðið svo heit að þau gefa frá sér röntgengeisla. Með því að mæla slíka röntgengeislun hafa vísindamenn fundið fyrirbæri í vetrarbrautinni okkar sem telja má líkleg svarthol.

 

bottom of page