top of page

Svarthol

Stjarna verður til úr gasi. Aðallega úr vetni sem þéttist vegna eigin þyngdar. Þegar stjarnan hefur náð ákveðnum þéttleika, er hitinn og þrýstingurinn nógu mikill til að vetnisatómin fari að renna saman svo úr verður helíum. Þannig losnar mikil orka. Þrýstingurinn sem myndast í gasinu vegna varmans og þyngdarkrafturinn í stjörnunni vega hvorn annan upp, þ.e.a.s stærð stjörnunnar helst í jafnvægi. Að lokum þrýtur eldsneyti stjörnunnar og hún endar ævi sína. Ef massi stjörnukjarnans er meiri en 3 sólarmassar, fellur kjarninn saman og myndar svarthol. Slík stjarna hefur heildarmassa sem samsvarar a.m.k. um 25-faldan massa sólar. Stjarnan þeytir ytri lögum sínum burt í gríðarlegri sprengingu. Svarthol sem verða til í sprengistjörnum geta vegið allt að 15 sólmössum.

Í miðjum vetrarbrauta geta myndast stærri svarthol. Þá hefur miðja vetrarbrautanna fallið saman vegna eigin þyngdar. Þannig svarthol geta vegið allt frá 10.000 sólmössum alveg upp í nokkra milljarða sólmassa. Í miðju okkar vetrarbrautar er svarthol. Það er um 4 milljónir sólmassar að stærð. Schwarzschild radíus þess er því um 10 milljón km. Svartholið er í Steingeitarmerkinu. Frá svartholinu berst mikil röntgengeislun frá meira en milljón gráðu heitu gasi umhverfis svartholið. Þessi uppspretta röntgengeislunar hefur fengið heitið Sagittarius A. Stjörnufræðiljósmynd ársins 2009 var einmitt mynd af miðju vetrarbrautarinnar sem sýnir glöggt hina miklu röntgengeislun.

Svarthol er í stuttu máli leifar stjörnu með svo öflugt þyngdarsvið að ekkert sleppur frá henni. Til að átta okkur á þessu skulum við skoða massaminni hnetti t.d. jörðina. Á jörðinni verkar á okkur þyngdarkraftur. Til þess að sleppa úr þyngdarsviði jarðar þarf að yfirvinna þyngdarkraftinn. Þ.e. hlutur þarf að ferðast með hraða sem nemur 11,2 km/s hornrétt út frá yfirborði hennar. Þessi hraði kallast lausnarhraði jarðar. Ímyndum okkur að þyngdarsvið hnattarins sé það öflugt að lausnarhraðinn sé meiri en ljóshraðinn. Þá sleppur ljósið ekki úr þyngdarsviði stjörnunnar. Þar sem ekkert getur ferðast hraðar en ljósið, sleppur ekkert úr þyngdarsviði stjörnunnar. Slíkt fyrirbæri köllum við svarthol.

bottom of page