top of page

Helstu einkenni tunglsins

Yfirborð tunglsins er þurrt og gróðurlaust og þar er ekkert loft. Efsta lag tunglsins er frá 1 og upp í 20 m á þykkt. Í því er ryk og grjót og við getum sagt að það sé jarðvegur tunglsins. En sá jarðvegur er allt öðruvísi en jarðvegurinn á jörðinni. Því þar er hvorki vatn né líf. Neil Armstrong lýsti tunglinu sem mikið af eyðimörkum í Bandaríkjunum, en þó fallegra. Jarðvegur tunglsins hefur skapast vegna stórra og smárra loftsteina. Oft skapast gígar þar sem loftsteinarnir lenda. Gígarnir geta verið örsmáir en einnig geta þeir verið hundruð kílómetra í þvermál. En það er fleira á tunglinu en stórar sléttur og ótal gígar. Þar eru líka fjöll sem eru stór. Vísindamenn telja að þessi fjöll hafi orðið til vegna eldvirkni fyrir milljörðum ára. Fundist hafa djúp gil á tunglinu. Ekkert rennandi vatn er á tunglinu og menn telja að það hafi aldrei verið. Hvernig hafa þá gjár orðið til á tunglinu? Hraunfljót gætu hafa grafið gilið. Heit gös úr tunglinu gætu hafa myndað langa rauf sem varð svo að gili. Kannski opnaðist gjáin fyrir milljörðum ára þegar heitt yfirborð tunglsins var að kólna og dragast saman. Vísindamenn halda að tunglið hafi áður verið heitt og þar hafi mikið gengið á. Djúpt inni í tunglinu gæti verið öðruvísi um að litast. Menn hafa skilið eftir sérstök tæki á tunglinu til þess að fá vísbendingar um innri gerð þess. Þessi tæki hafa sent gögn til jarðarinnar og þau segja eftirfarandi sögu. Skorpa tunglsins er um 65 km á þykkt. Þar fyrir innan virðist vera lag af þéttara bergi, u.þ.b. 800 km á þykkt. En hvað er fyrir innan það? Vísindamenn telja hugsanlegt að kjarni tunglsins sé úr járni sem sé bráðið að hluta.

bottom of page