top of page

Bylgjur

Að búa til bylgjur

Ef þú slærð snöggt á gúmmíteygju byrjar hún að sveiflast. Næst fara sameindir andrúmsloftsins sem eru næst teygjunni líka að sveiflast. Eftir stuttan tíma ná sveiflurnar að eyranu þínu. Þú heyrir eitthvað en finnur ekki fyrir hreyfingu loftsins við eyrað, þær eru ekki eins og vindhviða. Einnig má nefna að ef þú leggur eyrað upp að vegg og bankað er í hann hinum megin frá, heyrir þú bankið án þess að veggurinn færist til þín. Í báðum þessum dæmum berst hljóðið gegnum efnið (bylgjuberann) án þess að það hreyfist í heild sinni. Þetta má orða sem að orkan hreyfist úr stað en efnið ekki.

 

Hraði hljóðsins

Ef þú smellir fingrum þínum, heyrir þú hljóðið næstum samstundis. Þegar hleypt er af rásbyssu heyrir þú í henni um leið og skotinu var hleypt af. Þú gætir haldið að hljóðið bærist jafn hratt og ljósið. En í raun og veru berst hljóðið á um 340 metra hraða á sekúndu í lofti. Hljóðið berst því miklu hægar en ljósið.

 

Lögun bylgna og bylgjulengd

Segjum að jafnvægisstaða sameinda í bylgjubera myndi beina línu. Segjum síðan að sveifla fram á við sé fjarlægð ofan línunnar og sveiflan til baka sé fjarlægð neðan línunnar. Heil bylgja fer þá úr jafnvægisstöðu og upp í mesta útslag, síðan aftur niður í jafnvægisstöðu og áfram niður í öldudal og loks aftur upp í jafnvægisstöðu. Hæsti punktur útslags í hverri sveiflu kallast öldutoppur og lægsti punkturinn kallast öldudalur. Fjarlægðin frá jafnvægisstöðunni til öldudals eða frá jafnvægisstöðu til öldutopps er mesta útslag bylgjunnar. Ef bylgja hefur ákveðið útslag hefur hún líka ákveðna lengd. Lengd bylgju nefnist bylgjulengd eða öldulengd. Bylgjulengdin er fjarlægðin á milli tveggja öldutoppa í bylgju eða fjarlægðin milli tveggja öldudala. Reyndar getur þú mælt bylgjulengd frá hvaða punkti sem er ef þú mælir örugglega frá sama punkti í næstu bylgju.

 

Tíðni

Tíðni bylgjuhreyfingarinnar ræðst af því hversu margar heilar sveiflur eru á ákveðinni tímaeiningu. Af því að hver bylgja hefur einn öldutopp geturðu ímyndað þér að tíðnin sé sá fjöldi öldutoppa sem fara hjá á hverri tímaeiningu. Einnig mætti telja fjölda öldudala. Einingin herts eða rið, táknuð sem Hz, er oft notuð fyrir tíðni. Eitt herts er ein sveifla eða umferð á sekúndu.

bottom of page