top of page

Tunglmyrkvi nefnist það þegar sól, jörð og tungl mynda beina línu í þessari röð. Þá gengur tunglið inn í skugga jarðarinnar og myrkvast af þeim sökum. Sá sem staddur væri á yfirborði tunglsins sæi myrkvann sem sólmyrkva , því að jörðin skyggði þá á sólina frá honum séð. Til eru þrenns konar tunglmyrkvar sem fara eftir því hvernig tunglið færist inn í skugga jarðar. Ef tunglið fer alveg inn í alskuggann verður almyrkvi eins og í janúar 2001. Ef aðeins hluti tunglsins fer í gegnum alskuggann fáum við svokallaðan deildarmyrkva. Oftast fer tunglið hins vegar aðeins inn í hálfskuggann og fáum við þá hálfskuggamyrkva. Þegar slíkur myrkvi á sér stað er enginn hluti tunglsins algjörlega skyggður. Flestir taka ekki eftir hálfskuggamyrkva því tunglið virðist einungis aðeins dimmara en venjulega þótt fullt sé. Hægt er að sjá tunglmyrkva frá allri næturhlið jarðar. Tunglmyrkvi verður nefnilega þegar sólin og tunglið eru hvort sínu megin við jörðina. Lengd tunglmyrkva ræðst af því hvort tunglið ferðast beint gegnum alskuggann miðjan og er hraði tunglsins í gegnum skuggann um 1 km á sekúndu. Það þýðir að almyrkvi getur staðið í allt að 1 klukkustund og 42 mínútur en til samanburðar var lengd almyrkvans 9. janúar síðastliðinn 1 klukkustund og 2 mínútur. Tunglmyrkvar eru mun algengari en sólmyrkvar sem verða þegar tunglið gengur fyrir sólina og varpar skugga á lítið svæði á jörðinni.

Meiri upplýsingar á Vísindavefnum.

Sólmyrkvi

Sólmyrkvar eiga sér stað þegar tungl er nýtt og gengur fyrir sólina og varpar skugga á takmarkað svæði á yfirborði jarðar. Þeir eiga sér ekki stað mánaðarlega því nýtt tungl er venjulega norðan eða sunnan við jarðbrautarsléttuna vegna halla tunglbrautarinnar.
Almyrkvar á sólu eru sjaldgæfir atburður á hverjum stað á jörðinni, þar sem skugginn fellur aðeins á lítið takmarkað svæði. Fræðilega séð gætu almyrkvar lengst varað í 7 mínútur og 31 sekúndu en venjulega eru þeir ekki lengri en 2-4 mínútur. Sólmyrkvar hafa engar afleiðingar í för með sér aðrar en þær að dýr breyta hegðun sinni meðan hann stendur yfir. Til að sjá þessa undraverðu sýningu sem sólmyrkvi er, verður maður að vera staddur í alskugga tunglsins þar sem tunglið byrgir algerlega fyrir sólina og ekkert ljós berst frá henni, og er þá talað um almyrkva. Í þeirri fjarlægð sem jörðin er frá tunglinu er alskugginn mjór og þekur því aðeins lítið svæði á jörðinni. Þegar jörðin snýst, myndar alskugginn myrkvaslóð eða -rák á yfirborði jarðar. Almyrkvinn verður aðeins á þeim stöðum á jörðinni sem slóðin liggur um.

Skugga tunglsins er skipt í tvo hluta, alskugga og svo hálfskugga. Sé maður staddur innan hálfskuggans, hylur tunglið aðeins hluta sólarinnar. Meðan á sólmyrkva stendur nær hálfskuggi tunglsins yfir stórt svæði af yfirborði jarðar og hver sem stendur innan hálfskuggans sér svonefndan deildarmyrkva. Með öðrum orðum, deildarmyrkvar á sólu verða þegar tunglið hylur ekki algjörlega sólskífuna. Sólskífan virðist þá vera sigð, vegna tunglsins. Deildarmyrkvar eiga sér líka stað í tunglmyrkvum, en þá er tunglið ekki alveg hulið af alskugga jarðar, þannig að hluti tunglsins er upplýstur.

Meiri upplýsingar á Vísindavefnum

Sól og Tunglmyrkvi

bottom of page