top of page

Dægraskipti

Snúningur jarðar í kringum sjálfa sig er kallaður möndulsnúningur. Tíminn sem það tekur jörðina að snúast einn hring um möndul (miðað við sólina), er kallaður sólarhringur. Einhver ákveðinn staður á jörðinni snýr yfirleitt í átt til sólar hluta úr sólarhringnum og er þá lýstur upp, en hinn hluta sólarhringsins snýr staðurinn frá sólinni. Það er myrkur á staðnum sem snýr frá sólinni. Þetta köllum við dag og nótt, og allt ferlið dægraskipti. Hver möndulsnúningur tekur 24 klukkustundir og þess vegna segjum við að sólarhringur sé 24 klukkustundir. Möndullinn sem jörðin snýst um er ekki hornréttur á braut hennar um sólina, heldur skakkar þar 23,5 gráðum og kallast möndulhalli. Hann veldur því að staðir nálægt heimskautunum geta snúið í átt að sólu lengur en einn sólarhring í einu og einnig í skugga jarðar jafnlengi.

bottom of page