top of page

Mismunandi tegundir sjónauka.

Linsusjónaukar

Dæmigerður linsusjónauki (e. refractor) er langur og mjór og inniheldur linsur sem safna ljósi og beina því brennipunkt. Linsa í linsusjónaukum situr oftast stillt og föst í sjónaukatúbunni og þarfnast því lítils viðhalds. Helsti kostur linsusjónauka er sá möguleiki að nota hann sem útsýnissjónauka þar sem myndin í honum er upprétt á meðan hún er öfug í spegilsjónauka. Þetta gerir þér kleift að skoða fugla, náttúruna eða njósna um nágrannana; hvað það er sem þú ert spennt(ur) fyrir. Linsusjónaukar líta ennfremur út eins og alvöru sjónaukar og eru stundum mjög fallegir í útliti, nokkuð sem eiginkonan nú eða eiginmaðurinn gæti mögulega samþykkt sem stofustáss.

 

Spegilssjónaukar

Spegilsjónaukar nota spegla í stað linsa til þess að safna ljósi og beina því í brennipunkt. Í hefðbundnum spegilsjónauka er aðalspegillinn íhvolfur, svokallaður holspegill (concave parabolic mirror) sem safnar ljósi og beinir því að flötum aukaspegli ofarlega í túbunni sem varpar ljósgeislanum út, á stað þar sem þægilegt er að horfa í gegnum sjónaukann. Spegilsjónaukar eru alltaf opnir og er aðalspegillinn á botni túbunnar. Hitauppstreymi frá speglinum og loftstreymi inn í túbuna geta haft áhrif á myndgæðin í spegilsjónaukum andsætt linsusjónaukum sem eru lokaðir.

Í spegilsjónaukum myndast ekki litskekkja eins og í ódýrari linsusjónaukum. Þetta þýðir að myngæði vandaðs spegilsjónauka er oft á tíðum betri en í ódýrum en vönduðum ólita linsusjónaukum.

 

Linsu- og spegilssjónaukar

Þriðja tegund stjörnusjónauka eru svokallaðir linsu- og spegilsjónaukar (e. catadioptics) en það eru allir þeir sjónaukar sem innihalda bæði linsu og spegil. Í þessari tegund er aðalspegill á botni túbunnar sem safnar ljósinu og beinir því að aukaspegli sem endurvarpar því út um gat á botni túbunnar. Fremst í þessum sjónaukum – þeim hluta sjónaukans sem beinist til himins – er leiðréttingarlinsa (e. corrector plate) sem leiðréttir skekkjur í sjóntækjunum sem annars kæmu fram.

Vinsælasta tegund þessarar sjónaukagerðar eru Schmidt-Cassegrain sjónaukar en þar á eftir koma Maksutov-Cassegrain sjónaukar.

 

Hubble sjónaukinn

Þann 24. apríl 1990 hóf geimferjan Discovery sig á loft frá Canaveralhöfða í Flórída. Um borð í geimferjunni var Hubblesjónaukinn sem er eitt frægasta vísindatæki sem smíðað hefur verið. Sjónaukinn er samstarfsverkefni geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og geimferðastofnunar Evrópu (ESA). Þótt Bandaríkjamenn hafa borið hitann og þungann af kostnaðinum hafa Evrópumenn lagt sitt af mörkum til að mynda við smíði mælitækja í sjónaukann. Segja má að Hubblesjónaukinn sé fyrirtaks dæmi um hvað alþjóðlegt samstarf vísindamanna getur fengið miklu áorkað til heilla fyrir allt mannkynið.

Saga Hubblesjónaukans er í senn saga glæstra sigra og mikilla vonbrigða. Skömmu eftir að Hubblesjónaukinn fór út í geim kom í ljós að spegillinn í botni var ekki rétt slípaður sem þýddi að myndirnar frá honum voru óskýrar. Þrjú ár liðu þangað til geimfarar heimsóttu sjónaukann í fyrsta sinn og komu fyrir leiðréttingarbúnaði sem leysti vandamálið.

Tekið af stjörnufræðivefnum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                                                                             Mynd eftir Orra Á

Gerðir sjónauka

bottom of page