top of page

Flóð og fjara

Flóð og fjara

Flestir Íslendingar búa nálægt sjó. Mörgum gefst því tækifæri til þess að fylgjast með því þegar yfirborð sjávar hækkar og lækkar með ákveðnu millibili. Þetta kallast sjávarföll eða flóð og fjara. Þegar sjávarborðið stendur hæst er flóð. Þegar sjávarborðið stendur lægst er fjara. Sjávarföll stafa af aðdráttarafli tungls og sólar. Tunglið og sólin toga  til sín hafflötinn. Áhrif tunglsins eru þó mun meiri en áhrif sólar. Áhrifin eru þau að sjór streymir að þeim hliðum jarðar sem snúa að og frá tungli. Á þessum stöðum verður því flóð en fjara eftir því sem fjær dregur. Það eru 12 klukkustundir og 25 mínútur að meðaltali á milli tveggja flóða. Þannig er tvisvar flóð og tvisvar fjara um það bil á einum sólarhring.

 

Flóð og fjara geta skapað hættu

Í fjöruferð þarf að hafa vara á því oft fellur hratt að og yfirborð sjávar hækkar ört. Þannig hafa margir verið á flæðiskeri staddir og komist í hann krappan í ferðum um fjörur ef þeir hafa ekki fylgst nógu vel með sjávarföllum. Þess vegna er alltaf mikilvægt að vita hvenær er fjara og hvenær flóð er áður en lagt er af stað í fjöruferð. Þegar sól, tungl og jörð mynda nokkurn veginn beina línu er mestur hæðarmunur flóðs og fjöru. Nefnist það stórstraumur. Þetta gerist um það bil tvisvar í mánuði, þegar tungl er fullt og nýt. Þá leggjast saman áhrif tungls og sólar. Það gefst gott tækifæri til að skoða lífið í fjörunni  á stóstraumsfjöru því þá er hægt að skoða lífverur sem aðeins er að finna neðst í fjörunni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tekið úr bókinni Auðvitað 1

bottom of page