top of page

Miðaldir. 

Þegar leið á 12. öld fór stöðugleiki þjóðveldisaldar sem byggðist á jafnvægi milli höfðingja að raskast. Nokkrir

höfðingjar fóru að safna löndum og völdin söfnuðust á færri hendur en áður. Þessi þróun hófst í Skagafirði og Árnesþingi og bændur og búalið neyddust til að beygja sig undir vald stórbænda. Um leið urðu meiri átök milli höfðingja og átök urðu meiri og algengari. Á Sturlungaöld voru háðar stórorrustur á íslenskan mælikvarða, þar sem hundruð eða jafnvel þúsundir manna börðust. 

 

Sturlungaöld er kennd við Sturlu og afkomendur hans, Sturlunga, sem framan af áttu heimkynni á Vesturlandi. Hin eiginlega Sturlungaöld hefst um 1220. Sturla var höfðingi á uppleið sem ætlaði sér stóra hluti og lét ekki hlut sinn fyrir neinum. Hann þótti sýna mikla óbilgirni í deilum sínum.

 

Mörg stríð voru háð á Íslandi á Sturlungaöld og loks kom þar 1262 að Íslendingar samþykktu að ganga Noregskonungi á hönd og þar með lauk þjóðveldistímanum.

 

Samningurinn sem þá var gerður hefur gengið undir nafninu Gamli sáttmáli og eru elstu varðveittu handrit hans frá 15. öld. 

 

Á 13. öld var mikið ritað af samtímasögum og heimildir um atburði aldarinnar eru því mun betri en um aldirnar sem á eftir fóru en þó hefur töluvert varðveist af skjölum af ýmsu tagi, auk þess sem annálar voru ritaðir, en þeir eru oft mjög stuttorðir um mikla atburði.

 

 

Þótt einstakir höfðingjar söfnuðu miklum auð á 14. og 15. öld fór ástandið almennt versnandi. Þar kom margt til, svo sem kólnandi veðurfar (Litla ísöldin svokallaða hófst um miðja 15. öld), eldgos og ýmis óáran og ekki síst Svarti dauði, sem gekk á Íslandi 1402-1403 og felldi stóran hluta landsmanna. Fjöldi jarða lagðist í eyði, leiguverð lækkaði og mikill skortur var á vinnuafli, ekki síst til sjósóknar svo að minna aflaðist af fiski, sem var helsta útflutningsvaran. Í lok 15. aldar (1494-1495) gekk svo önnur afar mannskæð sótt um landið, Plágan síðari.

 

Með Gamla sáttmála féllust Íslendingar á að greiða Noregskonungi skatt gegn því að hann tryggði frið og reglulegar siglingar til landsins; þó hefur sú kenning komið fram að ákvæðið um siglingar hafi ekki komið inn fyrr en mun seinna því að á 13. öld hafi Íslendingar ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af siglingum til landsins.

 

Fjórtánda öldin hefur verið kölluð Norska öldin í sögu Íslendinga því þá voru tengsl Íslands og Noregs mikil. Ýmsir norskir embættismenn og biskupar gegndu embætti á Íslandi og verslun við Noreg var mikil, ekki síst eftir að mikill kippur kom í skreiðarverslun og útgerð. Vísir að fiskiþorpum byggðist upp á sumum helstu útgerðarstöðum Íslands og skreið tók við af vaðmáli sem helsta útflutningsvaran.

Íslendingar urðu stöðugt háðari siglingum útlendinga til landsins; þeir höfðu átt góðan skipastól á landnámsöld og fram eftir öldum en erfitt var að endurnýja hann og skipunum fækkaði smátt og smátt, þannig að utanríkisverslunin færðist öll í hendur útlendinga og þá fyrst til Norðmanna. Þetta kom sér illa, til dæmis þegar siglingar lögðust niður að mestu í nokkur ár á meðan og eftir að Svarti dauði geisaði í Noregi um miðja 14. öld.

 

Með stofnun Kalmarsambandsins 1397 varð Ísland svo hluti af ríki Margrétar Valdimarsdóttur og því næst Eiríks af Pommern, sem náði yfirDanmörku, Svíþjóð og Noreg. Þá fluttist þungamiðja konungsvalds í Noregi til Danmerkur og tengsl Íslendinga við Noreg minnkuðu mikið og rofnuðu endanlega um 1428.

 

Snemma á 15. öld hófst svo það tímabil sem hefur verið kallað Enska öldin, þegar verslun og önnur samskipti við Englendinga voru meiri en við aðrar þjóðir og Englendingar sigldu mikið til Íslands til að kaupa skreið og fleira og selja Íslendingum varning, auk þess sem ensk fiskiskip stunduðu veiðar við Ísland. Ekki gekk þetta allt þó slétt og fellt fyrir sig, heldur ekki þótt allmargir Englendingar gegndu hér biskupsembætti á 15. öld og voru þeir skipaðir af páfa en ekki erkibiskupi.

 

Innanlandsátök á Íslandi á þessum öldum voru oft tengd verslun við útlendinga og yfirráðum yfir útgerðarstöðum því að skreiðarútflutningur var helsta auðlindin. Til dæmis hefur verið sett fram sú kenning að þegar íslenskir höfðingjar fóru að Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi árið 1433 og drekktu honum hafi það verið pólitísk aðgerð að undirlagi Englendinga og jafnvel Jóns Vilhjálmssonar Craxton Hólabiskups, sem var enskur. Helsti bandamaður hans var Loftur ríki Guttormsson en Þorvarður sonur hans var annar foringjanna í aðförinni að Jóni Gerrekssyni.

 

Danakonungur og Englandskonungur sömdu um leyfi fyrir Englendinga til að versla og veiða við Ísland en Íslendingar gengu í berhögg við þann samning með Píningsdómi 1490. Englendingar hættu þó ekki Íslandssiglingum og voru hér viðloða fram á miðja 17. öld.

 

bottom of page