top of page

Mismunandi stjörnur

Stjörnum er skipt í flokka eftir hitastigum. Flokkarnir heita O, B, A, F, G, K og M. Litrófsflokkunum er svo skipt í undirflokka frá 0 upp í 9, t.d. F0 upp í F9, K0 upp í K9 og svo framvegis. Eftir því sem stjarnan er kaldari því hærri er talan t.d. A2 stjarna er aðeins heitari en A3 stjarna en kaldari en A1 stjarna.

 

O-stjörnur

O-stjörnurnar eru heitustu og björtustu stjörnurnar á meginröð. Þær eru bláleitar og geisla að mestu frá sér útfjólubláu ljósi (sem er mjög orkuríkt ljós). O-stjörnur eru á milli 30.000 til 60.000°C heitar. Þær eru 20 til 100 sólmassar, stundum meira. Þær eru bláir reginrisar því brenna þær vetnisforðanum sínum afar hratt vegna þess hve orkuríkar þær eru. Þær lifa aðeins í 3-6 milljónir ára og eru fyrstu stjörnurnar sem hverfa af meginröð vegna þess hve stutt þær lifa. O-stjörnur eru sjaldgæfar í Vetrarbrautinni. Þær enda ævi sína sem sprengistjörnur.

 

B-stjörnur

B-stjörnur eru næst heitustu stjörnurnar á meginröð. Þær eru á milli 2 til 16 sólmassar og milli 10.000 til 30.000°C heitar. B-stjörnur eru bláar eða bláhvítar og mjög bjartar. B-sjörnur lifa lengur en O-stjörnur, samt er ævi þeirra stutt og mælist hún í tugum milljóna ára. B-stjörnur geta verið í laustengdum hópum með O-stjörnum og mynda þá OB-stjörnufélag. Slíkir hópar innihalda um tíu til nokkur hundruð O og B stjörnur á svæði sem er nokkur hundruð ljósár í þvermál.

 

A-stjörnur

A- stjörnur eru þriðju heitustu stjörnurnar á meginröð. A-stjörnur eru 7500 til 10.000°C heitar, þær eru hvítar eða bláhvítar að lit. Massi þeirra er milli 1,5 til 3 sólmassar og ljósaflið er 7 til 80 sinnum meira en sólar. Reginrisar af A-gerð gætu verið allt að 11.000°C heitar og 16 sólmassar og 35.000 sinnum bjartari en sólin.

 

F-stjörnur

F-stjörnur eru fjórðu heitustu stjörnurnar á meginröð. Þær eru 6000 til 7500°C heitar. Þær eru hvítar eða gulhvítar. Dæmigerðar F-stjörnur eru á bilinu 1,2 til 1,6 sólmassar og 2 til 6 sinnum bjartari. Reginrisar af F-gerð eru allt að tífalt massameiri en sólin og 30.000 sinnum bjartari. F-stjörnur lifa nógu lengi til þess að líf gæti þróast og þrifist á reikistjörnum í kringum stjörnuna.

 

M-stjörnur

M-stjörnur eru köldustu stjörnurnar. Hitastig þeirra er innan við 3500°C svo að þær eru rauðleitar. Þegar stjörnur eru við þetta hitastig geta sameindir viðhaldist í lofthjúpum stjarnanna án þess að sundrast. Þess vegna eru gleypilínur sameinda áberandi í litrófi þessa stjarna. M-stjörnur á meginröð kallast rauðir dvergar. Þær eru innan við 0,5 sólmassar. Þær eru mjög daufar. Ljósafl þeirra er innan við 8% af ljósafli sólar. Rauðar reginrisar eru einn flokkur M-stjarna eins og Antares í Sporðdrekanum og Betelgás í Óríon. Antares og Betelgás eru 15 og 20 sinnum massameiri en sólin.

 

K-stjörnur

K-stjörnur eru næst köldustu stjörnurnar á meginröð, millistig G-stjarna og M-stjarna að stærð og hitastigi. Þær eru á milli 3500 til 5000°C heitar, gular eða appelsínugular. Massi K-stjarna er á milli 0,5 og 0,8 sólmassar. K-risar eru 1,1 til 1,2 sólmassar og 60-300 sólarljósöfl. K-reginrisar geta hins vegar verið allt að 13 sólmassar og meira en 40.000 sólarljósöfl. Það eru nokkrir rauðir risar af K-gerð sem sjást leikandi með berum augum á næturhimninum. Það eru t.d. Arktúrus í Hjarðmanninum, Aldebaran í Nautinu og Pollux í Tvíburunum.

 

G-stjörnur

G-stjörnur eru fimmtu heitustu stjörnurnar á meginröð. Þær eru á milli 5000 og 6000°C heitar og 0,8 til 1,2 sólmassar. G-stjörnur eru gular eða gulhvítar því hámarksútgeislun þeirra er í græna/gula hluta litrófsins. Í litrófi G-stjarna eru vetnislínur sýnilegar en þó veikari en í F-stjörnum, en K og H gleypilínur einjónaðs kalsíums eru mest áberandi og í rauninni augljósastar í G2-stjörnum. Sólin okkar er G2-stjarna. G-stjarna brennir vetni í um 10 milljarða ára, þar til vetnisforðinn er búinn. Þá þenst stjarnan út og breytist í rauðan risa. Að lokum varpar rauði risinn ystu efnislögum sínum frá sér og myndar hringþoku. Í miðju hringþokunnar situr eftir þéttur hvítglóandi kjarninn, hvítur dvergur sem kólnar smátt og smátt næstu ármilljarða.

bottom of page