Þemanám 2014-2017
Nemenda Álfaborgar / Valsárskóla
Sameinuðu þjóðirnar
Sameinuðu þjóðanna og hvernig fénu skuli varið. Það kýs einnig aðalframkvæmdastjóra að fenginni tillögu öryggisráðsins. Þingið velur fulltrúa í aðrar stofnanir.
Störf allsherjarþingsins fara að mestu fram í sex aðalnefndum þess, þar sem öll aðildarríkin eiga fulltrúa.
Fyrsta nefnd fjallar um öryggis- og afvopnunarmál.
Önnur nefnd fjallar um efnahags-, þróunar- og umhverfismál.
Þriðja nefnd fjallar um félags- og mannréttindamál.
Fjórða nefnd fjallar um sérstök pólitísk mál og nýlendumál.
Fimmta nefnd fjallar um fjárhags- og stjórnunarmál
Sjötta nefnd fjallar um þjóðréttarmál.
Á meðan allsherjarþingið situr halda ýmsir ríkjahópar samráðsfundi eftir því sem þörf gerist. Ísland tekur aðallega þátt í fundum, Vesturlandahópsins (WEOG) og samráði JUSCANZ-hópsins. Þá hefur lengi verið náið samstarf við Evrópusambandið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þannig tekur Ísland t.d., eftir því sem við á, undir ræður sem formennskuríki eða sendinefnd ESB heldur fyrir hönd Evrópusambandsins.
Öryggisráðið
Að þjóðarétti er Ísland skuldbundið til að framfylgja ákvörðunum öryggisráðsins. Framkvæmd ákvarðana ráðsins hér á landi er á forræði utanríkisráðherra.
Samkvæmt lögum nr. 5/1969 er ríkisstjórninni heimilað að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að framfylgja ákvörðunum sem öryggisráðið tekur. 39. og 41. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna skilgreina valdheimild öryggisráðsins og varða refsiaðgerðir gagnvart einstökum ríkjum.
Hlutverk öryggisráðsins samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna er m.a.:
Að viðhalda alþjóðafriði og -öryggi í samræmi við grundvallarreglur og markmið Sameinuðu þjóðanna.
Að gera tillögur um fyrirkomulag vopnamála.
Að ákveða hvort friði sé ógnað eða ógn stafi af árás og gera tillögur um viðbrögð.
Að fela aðildarríkjum að beita efnahagsþvingunum eða öðrum aðgerðum öðrum en stríðsátökum til að koma í veg fyrir eða stöðva árás.
Að grípa til stríðsaðgerða gegn árásaraðila.
Efnahags- og félagsmálaráðið
Efnahags- og félagsmálaráðið hefur mjög umfangsmikið verksvið. Það fæst m.a. við efnahagsmál, viðskipti, efnahagsþróun, félagsmál, mannfjöldamál, barnaverndarmál, húsnæðismál, kvenréttindi, kynþáttamismunun, eiturlyfjamál, varnir gegn glæpum, félagslega velferð, æskulýðsmál, umhverfismál og fæðuöryggi. Einnig samþykkir ráðið tillögur um hvernig bæta megi menntun og heilsugæslu, og standa vörð um mannréttindi og frelsi, hvar sem er í heiminum. 54 aðildarríki eiga aðild að efnahags- og félagsmálaráðinu og eru þau kjörin af allsherjarþinginu til þriggja ára í senn. Ráðið sjálft heldur venjulega einn fund á ári og ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála. Fjöldi nefnda tekur þátt í störfum ráðsins og það styðst við sérstofnanir og áætlanir samtakanna.
Sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru sautján og er hver um sig sjálfstæð, með eigin fjárhag og aðalstöðvar. Þær kanna málefni, undirbúa tillögur og aðstoða þróunarlönd á sérsviðum sínum. Allsherjarþingið hefur einnig komið á fót ýmsum öðrum sérhæfðum stofnunum, sem vinna í nánum tengslum við efnahags- og félagsmálaráðið og í flestum tilvikum leggja þær skýrslu fyrir allsherjarþingsins og öryggisráðið.
Gæsluverndarráðið
Gæsluverndarráðið hafði mikilvægu hlutverki að gegna við að veita sjálfstæði fyrrum nýlendum og hernumdum svæðum Þýskalands, Ítalíu og Japans í Afríku og á Kyrrahafi. Aðilar að gæsluverndarráðinu eru fastafulltrúarnir í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og einfaldur meirihluti ræður þar úrslitum mála. Þar sem síðasta gæsluverndarsvæðið, Palá, varð sjálfstætt ríki í október 1994 er ráðið nú verkefnalaust. Íslensk stjórnvöld hafa tekið undir þau sjónarmið að leggja beri gæsluverndarráðið niður.
Alþjóðadómstóllinn
Aðsetur alþjóðadómstólsins er í Haag í Hollandi og starfar hann árið um kring. Dómarar eru fimmtán og eru þeir kosnir af allsherjarþinginu og öryggisráðinu. Til að unnt sé að kveða upp úrskurð í málum fyrir dómstólnum þurfa níu dómarar að standa að honum.
Samþykktir alþjóðadómstólsins eru hluti af sáttmála Sameinuðu þjóðanna og því eru öll aðildarríkin sjálfkrafa aðilar að dómstólnum. Í 36. grein samþykkta dómstólsins, 2. málsgrein, er kveðið á um skyldulögsögu dómstólsins. Nokkrir tugir ríkja hafa gengist undir þetta ákvæði án fyrirvara, en önnur hafa haft ýmsa fyrirvara og sum hafa ekki samþykkt ákvæðið. Ísland er í síðastnefnda hópnum.
Aðalframkvæmdastjóri
Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er æðsti embættismaður stofnunarinnar. Hann er skipaður af allsherjarþinginu samkvæmt tillögu öryggisráðsins til fimm ára í senn. Hann hefur yfirumsjón með starfsemi samtakanna. Hann getur lagt fyrir öryggisráðið hvers kyns mál, sem hann telur að ógna kunni heimsfriðinum, og lagt fram tillögur um málefni, sem tekin skulu upp á allsherjarþinginu eða í öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna.
Starfslið skrifstofu Sameinuðu þjóðanna vinnur að framkvæmd ákvarðana Sameinuðu þjóðanna.
Núverandi aðalframkvæmdastjóri er Ban Ki-moon, fyrrverandi utanríkisráðherra Lýðveldisins Kóreu. Hann tók við embættinu í ársbyrjun 2007 og í júní 2011 var skipan hans endurnýjuð til fimm ára, eða út árið 2016.
