top of page

Sjálfstæði Íslands

 

Þótt Íslendingar gengju Noregskonungi á hönd árið 1262 má segja að þeir hafi að mestu leyti ráðið sér sjálfir næstu aldirnar. Það er ekki fyrr en með siðaskiptunum sem áhrif Dana á innanlandsmál fara að aukast verulega og ná svo hámarki með upptöku einveldis 1662. Eftir það verður þess stundum vart að Íslendingar fari fram á að vera settir jafnt og aðrir þegnar Danakonungs en hvergi er þó hægt að segja að örli á neinum óskum um sjálfstæði. Þótt oft sé talað um illa meðferð Dana á sárafátækum íslenskum almúga er sannleikurinn sá að oftar en ekki voru það íslenskir höfðingjar og stórbændur sem sjálfir fóru illa með landa sína.

 

Upphaf sjálfstæðisbaráttu

Þjóðernisstefnu óx fiskur um hrygg í Evrópu á fyrri hluta 19. aldar og þá efldist þjóðerniskennd Íslendinga. Áhugi á sögu Íslands, íslensku máli og fornbókmenntum jókst til muna og glæddi þjóðerniskenndina. Tæpast er þó hægt að tala um eiginlega sjálfstæðisbaráttu á fyrri hluta aldarinnar, þótt Jörundur hundadagakonungur lýsti landið að vísu sjálfstætt í skammvinnu valdaráni sínu sumarið 1809. Alþingi, sem orðið var valdalaust og hafði varla annað hlutverk en að dæma í málum sem þangað var vísað úr héraði, hafði verið lagt niður árið 1800 og Landsyfirréttur stofnaður í staðinn.

 

Þótt flestir gerðu sér grein fyrir því að sjálfstæði Íslands væri ekki raunhæft á þessum tíma var krafan um umbætur sterk. Í kjölfar þjóðernisvakningar og stjórnmálahræringa suður í Evrópu hófu Íslendingar að berjast fyrir endurreisn Alþingis og láta sig dreyma um sjálfstæði þjóðarinnar. Skáld og ungir menntamenn voru þar framarlega í flokki og má þar nefna til Jónas Hallgrímsson og Fjölnismenn. Alþingi var svo endurreist í Reykjavík 1845, að vísu aðeins sem ráðgjafarþing.

 

Þegar Danakonungur afsalaði sér einveldi árið 1848 urðu ákveðin straumhvörf og þá má segja að hin eiginlega sjálfstæðisbarátta hafi hafist. Jón Sigurðsson birti þá Hugvekju til Íslendinga og lýsti þar rökum fyrir því að Íslendingar ættu að fá að ráða sér sjálfir. Vísaði hann þar í Gamla sáttmála, þar sem Íslendingar hefðu gengið í samband við Noreg sem frjálst land með ákveðnum skyldum og réttindum og skyldi öll stjórn og lög vera innlend. Þar sem Danakonungur hefði nú afsalað sér einveldi hlyti Gamli sáttmáli aftur að vera genginn í gildi og Íslendingar gætu því ekki heyrt undir danskt þing eða ríkisstjórn.[19]

 

Baráttan ber árangur

Þjóðfundur var haldinn í Reykjavík sumarið 1851 að frumkvæði dönsku stjórnarinnar og þegar Jón Sigurðsson lagði þar fram frumvarp byggt á Hugvekjunni og ljóst að það yrði samþykkt ákvað fulltrúi konungs, Trampe greifi, að slíta fundi í nafni konungs. Jón mótmælti og þingmenn tóku undir með orðunum: „Vér mótmælum allir.“ Eftir þennan fund var Jón óumdeildur leiðtogi í baráttu Íslendinga fyrir auknum réttindum. Hann barðist líka af mikilli atorku fyrir verslunarfrelsi og benti á slæm áhrif einokunarinnar. Árangurinn varð sá að verslun við Ísland var frjáls öllum þjóðum frá 1. apríl 1855.

 

Árið 1874 fengu Íslendingar svo sína fyrstu stjórnarskrá og var haldin mikil hátíð á Þingvöllum í ágúst um sumarið, þar sem Danakonungur heimsótti Ísland í fyrsta sinn en Jóni Sigurðssyni var ekki boðið. Þá fékk Alþingi löggjafarvald með konungi, sem hafði neitunarvald og beitti því stundum, og fjárveitingavald, og Íslendingar höfðu því fengið takmarkaða sjálfsstjórn. Landshöfðingi var skipaður til að fara með æðstu stjórn landsins í umboði konungs og er tímabilið til 1904 kallað landshöfðingjatímabilið.

 

I

bottom of page