top of page

 

Þegar þú borðar fer langt ferli af stað.  Sundrun hefst í munninum. Í munninum tyggjum við matinn okkar með tönnunum og þar blandast hann munnvatni. Munnvatnið myndast í svokölluðum munnvatnskirtlum og í munnvatninu eru ensím sem sundra kolvetnum. Á hverjum sólarhring myndast um einn lítri af munnvatni. Þegar fæðan hefur verið tuggin vel og er orðin mjúk og rök er hún flutt í hæfilega stórum skömmtum niður í kokið. Við það fer taugaviðbragð í gang og kynging hefst. Gómurinn lyftist og lokar leiðinni upp í nefholið. Um leið leggst barkaspeldið yfir opið á barkanum og kemur í veg fyrir að fæðan fari niður í barkann. Frá kokinu fer fæðan  niður í vélindað og sterkir vöðvar þess þrýsta henni niður í magann. Þessir vöðvar eru svo sterkir að þeir koma mat og drykk í maggan þó að við séum á hvolfi.

MAGINN-VÖÐVAR OG SÚR SAFI

Maginn er vöðvaríkur poki sem hnoðar og malar fæðuna og hún blandast súrum safa magans. Súr magasafinn inniheldur saltsýru og ensímið pepsín. Pepsínið sundrar prótínum, en saltsýran drepur bakteríur sem berast niður í magann. Slímhúð magans er þakin slími sem verndar hana gegn ætandi saltsýrunni.

BRISSAFINN OG GALLIÐ

Fæðan heldur áfram för sinni frá maga og berst inn í skeifugörnina, sem er fremsti hluti smáþarmanna. Inn í skeifugörnina liggja rásir frá brisinu og lifrinni. Brisið framleiðir brissafa sem inniheldur mörg ensím. Brissafinn vinnur líka gegn sýrunni sem er í fæðunni þegar hún kemur úr maganum.  Lfirin framleiðir gall. Það er gulgrænn vökvi sem leysir upp fituna í þörmunum. Gallið safnast saman í gallblöðrunni og þegar við borðum fitu dregst blaðran saman og spýtir gallinu inn í skeifugörnina.

SMÁÞARMARNIR

 Fæðan berst áfram eftir smáþörmunum og er nú orðin þunnfljótandi fæðumauk sem er þrýst aftur eftir margra metra löngum smáþörmunum með hjálp vöðva í þarmaveggjunum. Hér sundrast næringarefnin til fulls og eru nú í formi glúkósa, amínósýra og fleiri smárra sameinda. Innra borð smáþarmanna er álsett fellingum og á þeim eru agnarsmáar totur sem kallast þarmatotur. Í totunum eru fíngerðar æðar sem taka upp næringarefnin og þau flytjast síðan með blóðrásinni til allra frumna  líkamans. Á hverri þarmatotu eru svo hárfín útskot sem stækka yfirborðið ennþá meira svo það verður gríðarmikið, yfir 250 fermetrar. Þetta verður til þess að upptaka næringarefnanna verður margfalt meiri og hraðari en ef yfirborð þarmanna væri slétt.

GAGNLEGAR BAKTERÍUR Í RISTLI

Þegar fæðan berst til ristilsins er lítið orðið eftir af næringarefnum í henni. Hér er vatnið tekið upp og ýmis steinefni. Við þetta þykknar innihald ristilsins. Þar eru nú ýmis efni sem við getum ekki sundrað, t.d. plöntuhlutar úr beðmi og annars konar ómeltanlegar trefjar. Trefjarík matvæli eru samt holl því að þarmarnir starfa betur ef nógu mikið er af þeim. Í ristlinum er mikið af bakteríum sem hjálpa til við lokameltingu fæðunnar. Flestar þeirra eru gagnlegar og framleiða meðal annars vítamín. Þegar afgangur fæðunnar nær til endaþarmsins er hann orðinn að fremur föstum úrgangi og um þriðjungurinn er bakteríur. Þegar endaþarmurinn er orðinn fullur dragast vöðvar hans og ristilsins saman og þrýsta úrganginum, saurnum út um endaþarmsopið en þar er hringvöðvi sem slakar á.

 

Tekið upp úr: mannslíkaminn bls.21-23

STARFSSEMI

bottom of page